Veturinn nálgast - kominn tími á yfirferð

Það eru enn margir létthjólamenn á ferðinni og verða eflaust framundir áramót.

Nú er lag að benda á að það er kominn tími á að yfirfara hjólið fyrir veturinn. Olíuskipti er best að framkvæma áður en það verður of kallt fyrir olíuna. Kíkja á dekkin og legurnar. Lítilsháttar slitnar legur þurfa ekki endilega að vera hættulegar þegar það er þurrt og gott veður, en geta orðið býsna hættulegar þegar kólnar og grip minnkar. Léleg dekk sömuleiðis.

Svo vil ég nota tækifærið og minna þá sem eru hjólandi án hlífðarfatnaðs að það er ekkert sniðugt til lengdar. Ég hef tvisvar farið í götuna, og í bæði skiptin brotnað. Annað skiptið viðbeinsbrotnaði ég - á mjög lítilli ferð. Hitt skiptið hnúabrotnaði ég. Í bæði skiptin vantaði viðunandi hlífðarfatnað fyrir þann líkamspart sem bar skaða af.

Á 50KM hraða er hægt að detta frekar illa. Ekki bætir úr skák að allt í kringum mann eru stærri og frekari faratæki sem sýna hjólamönnnum oft á tímum ekki viðhlítandi tillitssemi. Það getur skapað hættuástand þar sem hlífðarfatnaður getur skipt sköpum um hvort úr verði óhapp, eða stórslys.

Létthjólamenn - klæðið ykkur fyrir fallið - ekki ferðina.


Hjólin mín og hjólarí, smá intró...

Það er sumar og árið er 2002. Bensín er að hækka í verði og strætó gengur hvergi nærri þingholtunum - hverfinu sem ég er nýlega fluttur í. Það er 25 mínútna (rólegur) gangur í vinnuna.

Ég tek þá afdrifaríku ákvörðun að selja bílinn minn og kaupi mér vespu. Þar sem ég eins og flestir íslendingar, fyrr og síðar, keypti bílinn minn á lánum, þá fékk ég lítið sem ekkert fyrir hann. Vespan var hinsvegar það ódýr að ég gat greitt hana í peningum að hluta og rest á stuttum raðgreiðslusamningi. Góð kaup það, því ég eignaðist vespuna að fullu á tiltölulega skömmum tíma.

Vespan sem ég keypti hét Piaggio Vespa ET4/50. Fjórgengis vél (ekkert vesen að blanda olíu í bensínið) og 50 kúbik. Sem þýddi að bílprófið var nóg til að aka henni.

Piaggio Vespa ET4

Þessarri vespu ók ég í og úr vinnu á hverjum degi, sama hvernig viðraði, að undanskildum miklum hálku og snjódögum. Ég fór í ferðalög á henni (m.a. í þjóðgarðinn á suðurnesjum) og hvert sem ég þurfti að fara innanbæjar.

Einu höftin voru þau að til þess að komast upp í Breiðholt þurfti að fara á hraðbraut, en eins og þeir sem þekkja til vita, þá má 50cc hjól ekki fara hraðar en 45KM/Klst.

Það var samt ekki til vandræða fyrr en fjölskyldumeðlimur fluttist þangað.

Ég ók þessu hjóli þar til ég byrjaði í námi og fluttist á annan stað í borginni (og ári betur).

Það er sagt um hjólafólk að það sé til tvennskonar hjólafólk - þeir sem hafa dottið og þeir sem eiga það eftir.

Í október síðastliðnum komst ég í fyrri hópinn þegar ég lenti í smávægilegu umferðaróhappi - og datt. Ég braut á mér viðbeinið og lagði því hjólið á hilluna tímabundið á meðan öxlin var að gróa. Ég notaði tækifærið og seldi vespuna frekar en að láta hana standa óhreyfða.

Í sumar bætti ég svo úr og keypti mér nýtt hjól. Hondu Dylan 125. Alvöru hjól sem getur fylgt umferð hvar sem er. Þetta hjól er hinn mesti kostagripur. Gott upptak þýðir að enginn pirraður bílstjóri er í 'skottinu' á manni. Stutt milli dekkja þýðir að það er mjög meðfærilegt. Snúningsradíus upp á rétta tvo metra.

Honda Dylan 125

Einnig er það með 'framrúðu' sem þýðir að veður hefur lítil áhrif á meðan hjólið er á ferð. Í rigningu verð ég minna blautur á því að fara á hjólinu en að labba út á strætóstöð, ef ég þarf ekki að stoppa á rauðu ljósi (og þá blotna ég aðallega vegna þess að bílar skvetta).

Það verður að segjast að eftir að ég skipti um lífsstíl, úr bíl í hjól, þá sitja fleiri krónur eftir í veskinu (minni bensín eyðsla, lægri viðhaldskostnaður) en þegar ég átti bílinn. Ég kemst allra minna ferða. Ég fer út í búð og kaupi tvo heila innkaupapoka og fer með á hjólinu (annan í 'skottið' og hinn á þar til gerða pokahöldu) og þurfi ég að flytja stærri einingar, þá læt ég bara senda mér með bíl.

Tryggingar eru einnig með besta móti ef maður tryggir hjá réttu tryggingafélagi. Vörður Íslandstrygging hefur þar verið ómetanlegur bakhjarl að veita tryggingar á sanngjörnu verði án þess að draga inn í dæmið einhverja sóða verðpólitík (TM buðu 470þ*, Sjóvá 500þ*, Vörður 57þ: *=lækkun ef ég myndi kaupa aðrar tryggingar). Vörður tryggði einnig Vespuna mína fyrir undir 30þ.

Dæmi um kostnað við að kaupa og eiga hjól:

Honda Dylan 125 kostar eins og mitt (4 ára gamalt) á bilinu 250-380 þúsund.

Galli kostar frá 25þ og uppúr. Skór og hanskar ekki innifaldir. Hjálmur, 10þ+

Þ.e. hjól og öryggisbúnaður undir 500þ.

125cc hjól krefst mótórhjólaprófs, en 50cc hjól gera það ekki (það er samt ráðlagt að kaupa sér hlífðarfatnað hvernig sem hjólið er, þar sem ekki er neitt sérlega þægilegt að detta á 50KM hraða, og beinlínis hættulegt ef maður er illa varinn.

Mótórhjólapróf kostar extra, 60þ+

Að smyrja hjól kostar um 1600,- á 4þ KM fresti (m.v. Hondu Dylan).

Að fylla á tankinn kostar um þúsundkall. Tvisvar í mánuði. (minna og sjaldnar á 50cc hjóli)

Þannig borga ég í rekstur um 61800 á ári, m.v. að ég keyri allan ársins hring, smyrji hjólið á réttum tíma og fylli á það tvisvar í mánuði. Þar sem ég keyri meira á sumrin og minna á veturna, þá jafnast þetta ágætlega út. Það má gera ráð fyrir að þetta sé frá 1/2 upp í 2/3 af þessarri upphæð m.v. 50cc hjól.

Ef ég kaupi dekk, þá kostar það um 5þ fyrir dekkið og bremsur kosta í kringum 6þ hvor.

Annað viðhald eru t.d. reimar (sem gerist með einhverra ára millibili, en hefur ekki enn gerst hjá mér).

Kostnaðarsamt viðhald er líklegast hjá þeim sem hugsa ekki um hjólin sín og ná því marki að skemma vél eða drif en ekki eins líklegt hjá þeim sem hugsa vel um hjólin sín nema hreinlega sé um óhapp að ræða, og þá er það samt ekki jafn kostnaðarsamt og ef um bíl væri að ræða.

Sparnaðurinn í buddunni er því sjáanlegur.

Mitt mottó hefur líka verið að reyna vera umhverfisvænn eftir getu. Það er engum vafa undirorpið að mótórhjól slíta gatnakerfinu minna en bílar, bæði malbiki og undirlagi. Þar með valda þau minna svifryki og því minni mengun. Sömuleiðis brenna þau minna eldsneyti á hvern farþega en meðal bíll og því minni CO2 mengun. Mótórhjól eru almennt umhverfisvænni en eru líka félagslegri farartæki en bílar. Þau hvetja til samveru og samkenndar við annað hjólafólk, og eru því farartæki sem ættu að vera íslendingum ákjósanlegri faraskjóti, sérstaklega nú þegar loftslag er hlýrra og möguleikar til iðkunar þessa ágæta ferðamáta eru mun betri en fyrir nokkrum árum.


Um bloggið

Léttir fararskjótar

Blogg um létta fararskjóta (Vespur, Scootera, Mótórhjól)

Höfundur

Þór Sigurðsson
Þór Sigurðsson
Höfundur er Tölvunarfræðingur B.Sc. frá Háskólanum í Reykjavík, og M.Sc. nemi á sama stað.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mislæg gatnamót
  • Honda Dylan 125
  • Piaggio Vespa ET4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband