Færsluflokkur: Tölvur og tækni
24.10.2007 | 13:23
Meira Linux
Ég tók tölvuna með mér í skólann í dag, í fyrsta sinn síðan ég uppfærði úr Windows í Linux.
Enn sem komið er, þá hef ég getað notað hana í allt sem ég þarf hana í.
Hinsvegar kom í ljós galli sem ég átti ekki von á.
Hún getur ekki farið í svefn (sleep).
Og ef ég nota suspend to disk (þekkt sem hibernate í Windows), þá kemur skjákortið (og þar með skjámyndin) herfilega brengluð þegar vélin er ræst aftur.
Það er náttúrulega frekar vont. Ég vil ekki þurfa að slökkva alveg á vélinni milli kennslustunda eða á milli þess að ég fer úr skólanum og heim. Ég vil geta haldið áfram verkum mínum hvenær sem mér dettur í hug.
Að þurfa að slökkva alveg á vélinni og að þurfa ræsa öll forrit aftur, opna viðeigandi skrár m.m., í hvert sinn sem ég kveiki á vélinni... vonlaust.
Nú er að gúgla sig grænan og sjá hvort ekki sé lausn á þessu 'litla' vandamáli.
Tölvur og tækni | Breytt 2.12.2007 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2007 | 23:18
Uppfærsla, alveg ókeypis.
Undanfarna mánuði, eða síðan skólinn byrjaði, hef ég verið að nota Windows Vista á ferðatölvunni minni. Það hafa verið fyrir því ýmsar ástæður, m.a. að vera með sambærilegan hugbúnað og hópurinn sem maður vinnur með. Hinsvegar hefur Vista eins og Windows er svo gjarnan von og vísa farið rotnandi og myglandi, og er nú svo komið að það að nota vélina í meira en klukkustund samfellt verður til þess að hún er orðin hægari en gamalmenni í göngugrind (ekkert illt um eldriborgara með hjálprartæki..)
Því var kominn tími á uppfærslu.
Þá stóð spurningin eftir - hvernig er hægt að uppfæra úr nýjasta stýrikerfi Microsoft ?
Jú, með því að fá enn nýrra stýrikerfi - frá einhverjum öðrum.
Fyrir valinu varð openSuSE Linux 10.3 sem fáanlegt er fyrir allar algengar vélagerðir, þmt. 32- og 64-bita PC vélar, Macintosh vélar með PPC og Intel örgjörva m.m.
Niðurhalið er rétt rúm 4GB (DVD diskmynd). Þegar búið var að brenna myndina á DVD disk, þá tók við innsetningin. Það skal tekið fram að ferðavélin mín er ærið sérstök. Toshiba Tecra M4, TabletPC tölva. Merkilegt nokk, þá þekkti innsetningarforritið allan vélbúnað. Þráðlaust net, Blátönn, USB og eldvír, allt með besta móti. Það eina sem ég þurfti að virkja sérstaklega var Wacom hlutinn í skjánum, og þar þurfti til örfáa músarsmelli.
Magnað.
Nú er keyrandi á vélinni nýjasta útgáfan af Linux með alveg haug af hugbúnaði. Þróunar-, skrifstofu-, hjálpar- og leikjahugbúnaður, sem allur er ókeypis og frjáls.
Það verður að segjast eins og er, að það er ekki sama gloss-áferðin á Linux eins og í Vista, en hinsvegar get ég fullyrt að það er ekkert ennþá sem hamlar notkun minni. Og það er gott. Mjög gott.
Meira síðar
Tölvur og tækni | Breytt 2.12.2007 kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2007 | 22:23
Hvað er lögmætur hugbúnaður ?
Mig langar aðeins að spá í hvað er lögmætur hugbúnaður. Ástæða þess að ég spái aðeins í þetta er að ég er tölvunarfræðinemi og þarf því að hafa mitt á hreinu. Í gegnum tíðina hef ég alltaf keypt þann hugbúnað sem ég nota, jafnvel þótt hann hafi aðeins verið mér til skemmtunar. Ég hef verið kallaður furðulegur af sumum fyrir vikið, sennilega vegna þess að ég er tilbúinn til að eyða tugum þúsunda í forrit.
En aftur að upprunalegu hugleiðingunni, hvað er löglegur hugbúnaður ?
Það má gera ráð fyrir því að þegar þú kaupir þér hugbúnað úti í búð (shrinkwrap), þá sé sá hugbúnaður löglegur. Þú innsetur hugbúnaðinn á eina vél og hugbúnaðurinn er ennþá löglegur. Séu fleiri vélar á heimilinu, þá fer yfirleitt eftir leyfissamningnum hvort það megi setja hugbúnaðinn inn á aðrar vélar. T.d. má aðeins setja háskólaútgáfuna af Office inn á eina vél, en heimilis og skólaútgáfuna má setja á þrjár vélar. Þá fer að vandast málið og gott að glugga í leyfissamninginn.
Hinsvegar verður málið svolítið skrýtið (og spurning um lögmæti þess - frá báðum hliðum séð) þegar þú færð þér nýja tölvu.
Gefum okkur eftirfarandi:
Þú kaupir tölvu og færð stýrikerfi með í kaupunum ( PC með Windows XP eða Vista, OEM útgáfu, eða Macintosh með Mac OS X ).
Þú átt tölvuna í einhvern tíma, en svo eyðileggst tölvan (á hátt sem tryggingar og ábyrgð ná ekki yfir, t.d. af völdum eldingar - annað eins hefur gerst, t.d. í Njarðvík fyrir nokkrum árum).
Þú kaupir þér því notaða vél, svipaðrar gerðar (en ekki alveg eins), en svo illa vill til að sá sem seldi þér vélina er búinn að týna stýrikerfadiskunum (og leyfismiðanum ef um er að ræða Windows) sem fylgdu vélinni.
Þú vilt því nota stýrikerfið sem þú ert þegar búinn að borga fyrir og fylgdi gömlu (en nú ónýtu) vélinni.
Samkvæmt framleiðanda stýrikerfisins þá máttu það ekki. Microsoft neitar þér (í Windows Vista alveg sérstaklega) um að færa það á milli véla á þeirri forsendu að þetta sé ekki sama vélin. Apple neitar þér ekki sérstaklega, þeir hindra það bara með því að tryggja að stýrikerfisdiskurinn ræsir aðeins á þeirri gerð véla sem hann fylgdi.
Ef við gerum smá samanburð - þú kaupir þér bíl. Þú átt bílinn í nokkurn tíma og lendir svo í árekstri og eyðileggur bílinn. - En, vélin er heil. Þú getur komist yfir annan bíl sem vélin passar (næstumþví eða alveg) í, og þekkir bifvélavirkja sem getur sett hana á sinn stað fyrir þig. Það myndi enginn heilvita maður reyna telja þér trú um að það væri ólöglegt. Þvert á móti, þetta þykir hinn eðlilegasti hlutur.
Hversvegna ætti það þá að vera ólöglegt að flytja hugbúnað (stýrikerfi, og allur annar hugbúnaður sem notar Windows Genuine Advantage (WGA) vörn) á milli véla ?
Það er vissulega vandamál þegar virðinguna fyrir hugverkinu vantar og fólk tekur sig til og afritar hugbúnað án þess að virða leyfissamninga og höfundarrétt. En hitt er líka vandamál þegar höfundar eru farnir að gefa sjálfum sér meiri rétt en efni standa til (þetta má glöggt sjá með rétthafasamtök tónlistarmanna og kvikmyndagerðamanna sem eru orðin ríki í ríkinu). Hvenær er maður sakaður um lögleysu á fölskum forsendum ?
Samtök eins og RIAA, MPAA, SMÁÍS, STEF og önnur rétthafasamtök tón- og myndiðnaðar og útgefendur hafa komist upp með það í meira en 100 ár (þau sem hafa verið við lýði svo lengi) að saka viðskiptavini sína um þjófnað og fella á þeim dóm áður en til viðskipta er einusinni stofnað (sjá: auglýsingar SMÁÍS á leigumyndböndum, skilaboð frá MPAA á erlendum leigumyndböndum og sölu-DVD, málsóknir RIAA á hendur börnum og látnu fólki í BNA og sköttun STEF á "upptökumiðlum").
En alveg þar til fyrir nokkrum árum þótti nóg í hugbúnaðariðnaðinum að vekja máls á því hvert vandamálið væri. Það voru ekki nema nokkur fyrirtæki á sem tóku á það ráð að læsa hugbúnaði. Flest fyrirtæki sem brugðu á það ráð komu úr stórtölvugeiranum þar sem slíkt hafði tíðkast nánast frá upphafi.
Í dag hinsvegar eru neytendur sekir, dæmdir og hengdir um leið og þeir ganga með nýja tölvu út úr búð. Verst er þetta kjósi fólk að kaupa sér tölvu með hugbúnaði frá Microsoft. Þar ertu orðinn sekur fundinn og dæmdur um leið og þú gerir tvær smávægilegar breytingar á vélinni þinni, t.d. að bæta við minni og stækka harða diskinn (miðað við Windows Vista, en þessar tvær breytingar duga til þess að gera stýrikerfið óvirkt. Skv. Microsoft telstu ekki lengur vera með sömu vél, og því þarftu að hringja til þeirra og biðja þér náðar).
Hjá Apple er eina dæmið sem ég veit um stýrikerfið sem fylgir tölvunni. Það færðu ekki að færa annað nema vélin sem það á að fara á sé eins (sömu tegundar OG sömu kynslóðar) og hafi því hvort eð er komið með sama stýrikerfi og fylgihugbúnaði. Önnur stýrikerfi, s.s. Linux, FreeBSD, Solaris ofl. eru svo mýkri á manninn og bjóða þér að innsetja stýrikerfið og annan hugbúnað á fleiri vélar - eins margar og þér þóknast - án þess að brjóta samninga, lög, eða að þú þurfir að greiða sérstaklega fyrir fríðindin.
Því stendur eftir spurningin - hvað er löglegur hugbúnaður.
Eða kannski frekar... hvaða hugbúnaðarfyrirtæki eru lögleg ?
Um bloggið
Tóti Tölvukall
Færsluflokkar
Tenglar
Bloggvinir
Fólk sem ég les bloggið hjá reglulega
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar