Ódýrt að hætta að reykja - eða ?

Þegar reykingamenn (reyna) hætta að reykja, þá notast margir þeirra við hjálpartól á við plástur, úða, sogstauta og tyggigúmmí. Þessar vörur eru þekktar meðal þeirra sem nýhættir eru að reykja sem rándýrir. Sjálfur hætti ég að reykja fyrir þónokkru síðan. Ég hef síðan tuggið tyggigúmmíið (2mg). Þar sem ég er námsmaður að auki, þá finn ég talsvert fyrir því að kaupa þetta blessaða tyggigúmmi, enda kostar hagstæðasti pakkinn af því heilar fjögur þúsund og þrjú hundruð krónur. Þar sem ég hef grun um að tóbak hafi hækkað talsvert síðan ég reykti ákvað ég að gera samanburð. Af tyggigúmmí tygg ég uþb tvær plötur á dag. Það er talsvert, en ég afsaka það (eins og sönnum níkótínfíkli sæmir) með því að ég er undir álagi frá námi og vaki gjarnan 18-20 tíma á sólahring. Það þýðir að stór pakki af tyggigúmmíi endist mér sjö daga að jafnaði (stundum lengur, sjaldan en kemur þó fyrir skemur). Það eru 614 krónur á dag. Í Danaveldi kostar sami pakki Kr.217,0 Danskar (Heimild), 2647 íslenskar krónur, eða 378 krónur á dag (fyrir mig). Samkvæmt heildsöluverðlista ÁTVR á tóbaki, þá kostar "hefðbundinn" sígarettupakki í dag 520 krónur, í heildsölu. Það þýðir að ef ég stofna einkahlutafélag með "smásöluverslun", kaupi inn tóbak frá ÁTVR, og sel sjálfum mér með Kr.5 álagningu, þá skilar kostnaðurinn við stofnun EHF sér til baka í "hagnaði" (já, ófaglega fram sett þar sem þetta er ekki hagnaður, heldur aðeins minni útgjöld :) ) á fjórum árum (miðað við 150þ stofnkostnað, heyrt á förnum vegi). Það er s.s. hundrað krónum ódýrara á dag að reykja en að hætta að reykja (á meðan reykingalyfið er í notkun, sem getur verið þónokkur tími fyrir sumt fólk). En svo við skoðum bara tyggigúmmíið (þar sem ég hef enga löngun til að fara sjúga stauta aftur), þá munar á dagverðinu á tyggigúmmíi hér og í Danmörku heilum Kr.236. Það eru Kr.86.410,- á ári sem íslenskar lyfjasölur ofrukka mig miðað við danska verðið. Hvernig stendur á því ? Það verður erfitt og seint talið mér trú um að það kosti 86 þúsund krónur að flytja 52 pakka af tyggigúmmi inn til landsins og koma þeim fyrir þannig að ég geti keypt þá. Og ekki verðu mér talin trú um að þessa ofurálagningu þurfi til að greiða laun, því lyfsalar hafa fyrir löngu sýnt mér fram á að tekjulindin er í sérlyfjum eins og Roaccutan (sem er oft ávísað að gagnslausu við húðvandamálum þegar vandamálin verða ekki leyst með þessu lyfi) sem kostar TR tugi þúsunda (reyndar kostaði það þegar mér var ávísað á það yfir hundrað þúsund, kúrinn, en ég átti að borga einhvern tíuþúsundkall). Fjöldinn allur af lyfjum sem ávísað er hefur svo hátt verð að álagning (sem yfirleitt er mæld í %, ekki í Kr.) er vel að standa undir launakostnaði - og öðrum kostnaði. Þessi verðmunur er einvörðungu dæmi um það okur sem viðgengst í íslensku þjóðfélagi í skjóli lagaverndar og einokunar (á höfuðborgarsvæðinu eru tvö fyrirtæki með megnið af lyfjamarkaðnum, og samkeppnin er ekki að láta mikið á sér kræla hjá hinum sem þykjast sjálfstæðir - þeim fáu sem eftir eru). Mér finnst þetta ósvífið, og mér finnst að umboðsmaður neytenda eigi að taka þetta fyrir og berja niður þessa grýlu sem orðin er til innan lyfjageirans. Til umhugsunar: Hversvegna kostar glas með 30stk. 40mg. íbúfen (Actavis) tæplega 700 krónur, en glas ávísað frá lækni með 100stk. 60mg. íbúfen aðeins ríflega 300 krónur ?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

...notaðu minna tyggjó maður ;)

Ég hef notað tyggjó í 2 ár og það er mun ódýrara fyrir mig en reykingarnar. Fyrir utan ómetanlegan hagnað í mun heilbrigðari lungum. En vissulega mætti þetta vera mun ódýrara og í raun ættiRíkið að sjá hag í að niðurgreiða Nikótínvörur.

Hins vegar er ég ósammála þér varðandi Roaccutan. Var með slæmt bóluvandamál frá 16 ára aldri til 28 ára aldurs þegar ég hunskaðist til að fara á fyrrnefnt lyf. Skemmst frá að segja snarlæknaðist ástandið á 9 mánaða kúr og hefur ekki látið kræla á sé aftur enn, 7 árum síðar.

Páll Geir Bjarnason, 30.11.2007 kl. 02:24

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Heilbrigðisráðherra ætti að skoða verð á nikotinlyfjum.Nikotínfíkn er sögð jafnsterk og heroínfíkn. Ég er nikotínfíkill, því miður. Ég hef oft hætt að reykja, allt upp í 5 ár í einu. Ég bæti mér alltaf upp skaðann og margfalda neysluna eftir hvert stopp. Þú ert alveg jafnháður tyggjói eins og sígarettum en það fer ekki eins illa með þig. Það ætti að vera baráttumál að ná verði á nikotínlyfjum niður sérstaklega þegar alls staðar er bannað að reykja. Reyndar hefur þetta bann sparað mér ferðir á kaffihús og skemmtistaði.

Hólmdís Hjartardóttir, 30.11.2007 kl. 02:35

3 Smámynd: Þór Sigurðsson

Páll: Hvað Roaccutan varðar, þá átti ég ekki við að lyfið sem slíkt væri gagnslaust. Alls ekki. En því var því miður ávísað í mörgum tilfellum sem ég veit um (til mín sjálfs þmt) án þess að það gerði neitt gagn. Þar hefði mátt með betri skoðun á vandamálinu spara ríkinu talsverðar fjárhæðir. (Þess skal getið að ég á enn við bóluvandamálið að stríða. Á góðri leið að miðjum aldri.)

Hinsvegar veit ég um tilfelli þar sem það gerði gott gagn.

Á meðan ég er í námi kemur hinsvegar ekki til greina að hækka stress faktorinn með því að minnka tyggjóið - nóg er stressið samt í háskólanámi ;)

Hólmdís: Mikið satt. Að vísu getur það farið illa með magann og valdið magabólgum og einkennum sem lýsa sér eins og slæmt bakflæði, en ég held það eigi aðallega við gaura eins og mig sem nota slatta af þessu lyfi.

Auðvtað ætti það að vera baráttumál. Því fleiri sem fara á tyggjóið (þó það séu sumir sem auka á sóðaskapinn með því), þá nálgumst við kannski einhvern daginn markmiðin sem voru sett á miðjum tíunda áratugnum... Man enginn eftir "Vímulaust Ísland 2000" og slagorðinu "Hátt hREYKIR HEIMSKUR sér" ? :)

Þór Sigurðsson, 30.11.2007 kl. 02:54

4 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

ójú ég man eftir slagorðininu, en fé var ekki sett í þetta fremur en mörg önnur kosningamál. Ég kannast vel við meltingaróþægindi vegna tyggjós en það er vegna ofnotkunar og líka vegna þess að maður tyggur af of mikilli áfergju!!! Tyggjóið fer samt ekki eins illa með þig. Þú færð ekki lungnaþembu eins og við gömlu vinkonurnar erum að upplifa núna. Tyggjójapl í offorsi getur líka eyðilagt fyllingar í tönnum. Gangi þér vel að losna  við árann.

Hólmdís Hjartardóttir, 30.11.2007 kl. 03:04

5 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

...ef maður kyngir of miklum tyggjósafa fær maður helvíti slæmt í magann.

Páll Geir Bjarnason, 1.12.2007 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bakþankar Námsmanns

Höfundur

Þór Sigurðsson
Þór Sigurðsson
Höfundur er Tölvunarfræðingur B.Sc. frá Háskólanum í Reykjavík, og M.Sc. nemi á sama stað.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mislæg gatnamót
  • Honda Dylan 125
  • Piaggio Vespa ET4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband