Heitt, heitara og púff.

Það er heitt í London í dag.

VEL heitt.

Ég byrjaði daginn á því að fara (bent út í loftið af handahófi) þangað.

... og endaði í Hyde Park.

Það er ekki hægt að labba í gegnum Hyde Park (sem er einn stærsti almenningsgarður sem ég hef komið í - sennilega nógu stór til að planta allri Reykjavík með manni og mús þar) án þess að heimsækja The Rose Garden. Það er ein alveg einstaklega fallegur garður! Og maður lifandi lyktarupplifunin. Það eru engar sterkt lyktandi plöntur þarna, heldur aðeins mildar og vellyktandi plöntur. Auðvitað tók ég myndir þarna. Sennilega um 200 myndir eða svo Tounge

Í Hyde Park  er stórt stöðuvatn þar sem hægt er að leigja báta (bæði trampara og árabáta, þarna eru göngustígar sem eru lengri-en-ég-veit-ekki-hvað, og þarna er nóg pláss handa öllum. Fjórir hressingarskálar m.m. Ég fékk mér hressingu í "The Dell", og líkaði ágætlega, þótt þeir séu svolítið í dýrari kantinum (eins og við er að búast).

Eftir það lá leiðin niður í Oxford Street þar sem mig vantaði örlítið upp á fatakostinn til að geta talist vera með til skiptanna í 7 daga. Keypti mér 2 boli og nærur saman á 13 pund. Ágætis kaup það.

Manmergðin þar er ofboðsleg, og allir minnst jafn sveittir og ég. Það á víst enn eftir að hitna um 5 gráður, þannig að ég er assgoti hræddur um að ég þurfi íspoka áður en dagurinn er úti.. FootinMouth

En, það er restin af deginum eftir, ég farinn að kólna aðeins, svo það er best að leita á vit nýs svita og heitra stétta. Leiter fólks LoL


Þetta er alger dýragarður !

Það er reyndar ekki ofsögum sagt. Ég á náttúrulega við London Zoo, en þangað var förinni heitið í dag. Ég get skammlaust fullyrt að það þarf tvo daga til að skoða garðinn skikkanlega, og fleiri til að skoða hann vel. Ég tel mig hafa séð allt (eða þar um bil - ég var frá opnun og fram á síðustu mínútu). Ég tók 321 ljósmynd þarna og vona að allavegna 10% þeirra séu meira en bara viðunandi Smile

Eftir dýragarðinn fórum við Sigrún og Óli upp í Camden og fórum á hamborgaraveitingastað (ekki skyndibitastað !) sem heitir Haché (Hakk). Þar fékk ég mér spænskan borgara með geitaosti. Mjög sérstakur (og góður) borgari. Sigrún fékk sér ítalskan borgara (parma skinka og bræddur parmesan ofan á borgaranum) og Óli fékk sér (haltu þér fast..) "Full English Breakfast Burger" - með osti ! (Hamborgari með skinku, bökuðum, tómati, sveppi, eggi, pylsu - og osti) *ÚFF*

Og svo var dagurinn bara allt í einu búinn. Það er sagt að tíminn fljúgi þegar maður skemmti sér, en þessi tími rauk hreinlega á dyr..

Ég er ekki frá því að þetta sé skemmtilegasti dýratengdi dagur sem ég hef átt til þessa. Þeir sem lesa geta svo spurt mig í persónu um uppákomur sem gerðust í dýragarðsferðinni - uppákomur sem fara ekki á prent Grin

Ég er enn að spá í að fara út að labba fyrir svefninn. Læt það ráðast...

Á morgun er frípassi. Læt daginn hafa sína eigin ferð. 

 


Tæknisafnið og garðarölt

Ég ákvað að í dag skyldi ég eyða tíma á National Museum of Science. Það er alltaf gaman þar, en í þetta skiptið var tæplega helmingur safnsins lokaður vegna framkvæmda. Týpískt ég. Ég eyddi þó þremur tímum í að rölta í gegnum þær sýningar sem voru opnar.  Flestar sýningarnar alveg ágætar. Skipasaga höfðar ekkert sérstaklega til mín og því fékk hún litla athygli, en eitt af því sem ég kom til að sjá varð ég eiginlega fyrir vonbrigðum með. Saga tölvutækninnar byrjaði og endaði með Leibnitz og Babbage. Hvergi var minnst á Alan Turing, ekki orð á Sir Clive Sinclair eða Alan Sugar, ekki múkk um nútímabyltinguna. Í öðrum (alls ótengdum sögu tölvunarfræðinnar) útstillingum var að finna ZX80 og Apple 1. Vá...

Eftir safnaröltið þurfti ég að finna mér eitthvað annað að gera (safnið _átti_ að vera heilsdagsprógramm) svo ég fór á röltið. Rétt hjá safninu er National Gallery, og þar rétt hjá er garðurinn við Buckingham Höll. Og ekkert smá flottur garður ! Ætli ég hafi ekki verið þar í á fjórða tíma að rölta og mynda.

Núna er föstudagskvöld, og ég stefni á að fara og fá mér að borða eitthvað gott. Það er dýragarðsferð á morgun, og gott að vera vel nærður og hvíldur fyrir þá ferð - með 17000 dýr, ef ég skoða eitt dýr fjórðu hverja sekúndu, þá þarf ég þrjá heila daga til að skoða allt safniðW00t

Í hádeginu fékk ég mér "sjoppufæði". Elduð kjötloka, túnfiskrúlla, súkkulaði-og-ávaxtakaka og gos. £4.45. Það eru innan við sjö hundruð á okurgenginu sem er í dag. Og innan við sex hundruð á  eðlilegu gengi. Heima hefði þetta kostað yfir þúsundkallinn.

Spurning hvort það sé ekki einhver heima sem vill losna við mig af landi brott, og er tilbúinn til að borga mér vel fyrir að búa hérna ? Wink


Fagnaðarfundir, bakverkir, sviti og ávextir.

Þá er að líða að kvöldi annars dags. Ég sé að ég er alls ekki nógu duglegur að labba með fjölskyldunni, því ég er alveg lens eftir ekki nema svona 40 kílómetra labb :P

Þar sem ég var með óvæntu ánægjugjöfina hennar Sigrúnar með mér (pulsur með öllu, bæjarins bestu style), þá setti ég markið á Tower Bridge. En þar sem ég geri ekkert auðveldu leiðina ef ég á að hafa ánægju af því, þá labbaði ég niður að The Eye (frá Gower Street) og þaðan niður að Tower Bridge. Ég hitti á Sigrúnu, afhenti "stöffið" og við ákváðum að hittast í hádegismat. Í millitíðinni fór ég að skoða safn sem ég veit fyrir víst að hann litli bróðir minn hefði gefið slatta til að skoða. Þetta er nefnilega arkítektúr safn. Ég tók nokkrar myndir þar honum til ánægju :)

Eftir hádegið lá leiðin upp í Regents Street. Mekka eplamanna - að sjálfsögðu.

Ég verð að segja fyrir mína parta, ég varð ekkert ofboðslega impóneraður. Jújú, flott búð og allt það, en ekkert sem öskraði þarna á mig "kaupa kaupa kaupa". Kannski vegna þess að ég geri við þetta stöff dags daglega ;)  Á meðan ég var í búðinni (og tók myndir) kom upp að mér öryggisvörður og spurði hvort ég væri að filma, Ég svaraði nei og sýndi honum að vélin væri stillt á kyrrmyndatöku. Það er víst allt í lagi að taka kyrrmyndir, en ekki kvikmyndir. Oh well, ekki að það hái mér.

Ég sóaði síðan restinni af deginum í að fara upp í National Gallery og slæpast í skugga. Hitinn hérna er það mikill að maður er orðinn sveittur strax og maður stígur út, nýbaðaður.

Þegar ég kom svo "heim" á Tottenham Court Road, þá var ávaxtasali fyrir utan lestarstöðina. Ég keypti af honum þrjár guðdómlegar ferskjur og hálfs-kílós öskju af jarðaberjum. Og borgaði fyrir: tvö pund. Þrjú hundruð kall. Fyrir þann pening fengi ég varla að þefa af góðum ferskjum ! Ef þær svo fengjust einhversstaðar heima. Sem þær gera ekki.

Ég gæti SVO vanist þessu Tounge


Þreyttur dagur, erfiðar ljósmyndir

Þá er dagurinn liðinn að lokum. Hann varð svolítið endasleppari en ég átti von á. Ég fór á röltið og gekk Tottenham Court Rd. og niður að Leicester Square. Á leiðinni gekk ég fram á niðurrifsframkvæmdir, og tók af þeim mynd. Síðan hélt ég áfram niður á torgið þar sem ég fann fínan ítalskan veitingastað. Þar fékk  ég mér að borða, pasta með kjúkling. Síðan gekk ég in í Boots og keypti það nauðsynlegasta sem maður má ekki hafa með sér um borð í flug (eins og rakvélar, því maður gæti rakað einhvern til dauðs, svitaspray, því maður gæti... meh...). Þegar ég gekk til baka, þá gekk ég aftur framhjá niðurrifsframkvæmdunum. Og ég lýg því ekki, ég hef aldrei séð lundúnabúa jafn græna í framan... Það fór ekkert á milli mála, grafan sem var að rífa hafði grafið eitthvað upp. Nánar tiltekið klóak-kerfið. STÆKJA!

Þegar ég kom til baka á hótelið, þá ætlaði ég aðeins að hressa mig við. Ég lagðist útaf, hugsaði um hvað ég ætti að gera næst - og vaknaði aftur á miðnætti.

Nú er það tebolli, klára þessar skriftir og fara síðan að sofa aftur.

Hvað myndir varðar, þá er Asus Eee ekki með allt útpælt. Það kemur t.d. forrit til að breyta stærð mynda með vélinni, en skjárinn er of lítill til að ég sjái hvaða takkar eru í boði í breytiglugganum. Það er því assgoti hætt við því ef ég ætla ekki að eyða öllu fríinu í að tjónka við þessa dós, að ég sendi ekki inn neinar myndir fyrr en í lok ferðar (það er, næsta þriðjudag).

Sjáum til með það.

(og handa þeim sem spyrja afhverju breyta stærðinni: myndirnar eru 12 megapix - 4000x3000 pix ) 


Kominn á staðinn

Ókei, frá síðustu færslu hafa verið teknar: 0 (núll) ljósmyndir. Aðallega vgna þess að ég var að tékka inn á hótelið, og ven mig á að vera ekki með myndavélina uppivið á flugvöllum.

Þessi ferð var vægast sagt viðburðarík. Aðallega fyrir nefið á mér og tennurnar.

 Ég kom snemma á flugvöllinn og fékk gluggasæti eins og ég vildi (ég rápa aldrei sjálfur, og er þá laus við ráp annarra). Mér til óhugnaðar var sætisfélagi minn ekki beint til dægrastyttingar. Þetta hefur eflaust verið hinn ágætasti maður, en í nafni allra góðra vætta.. farðu í bað og burstaðu tennurnar !

Ég lýg því ekki, maðurinn angaði af storknum svita og í munnholunni hefur hann haft ekki færri en 24 kolbikasvartar og illa lyktandi tennur. Svo illa lyktandi að það eina sem mér datt í hug var að einhver hefði hellt klór ofan í rotþró. Og þetta var ferðafélagi minn næstu 3 klukkustundirnar.

Ég fann lausn. Ekki góð, en nánast viðunandi. Í stað þess að móðga manninn herfilega með því að benda honum á þennan augljósa ágalla hans setti ég loftræstinguna á fullt, beindi henni að mér, kuðlaði mig saman í sætinu eins og rakki og fór að sofa. Stanstead kom fljótar en ég átti von á.

Þá settist ég upp í lestina, beit saman og braut í mér tönn. GAH!

Fyndið að sitja í lest í London og hringja í tannlækninn til að panta tíma...

 Ojæja, ekki hundrað í hættunni - "What a tooth..." :-p

En á leiðinni frá Stanstead tók við ný lykt sem ég kannaðist ekki við frá Englandi. Súrhey og maurasýra. YUK! Sem betur fer er andrúmsloftið í miðborginni fyrirsjáanlegt, og því engin vandamál á ferðinni hér :)

Nú er ég búinn að tékka inn, og ætla að rölta mér út í 21° hitann og sólina :D

l8er 


Bissí dagur

Þá er dagur útskriftarferðarinnar runninn upp. Klukkan fimm var lagt af stað í átt að Leifsstöð, ég ég var búinn að leggja hjólinu á slaginu þegar innritun byrjaði. Svalt.

Það er ekki hægt að segja annað en að bæði Reykjanesbrautin og Leifsstöð hafa tekið breytingum síðan eg fór hér um síðast fyrir 3 árum. Annað til batnaðar, og hitt ekki. Ég leyfi lesanda að meta hvort er hvað.

Núna er bið eftir flugvélinni sem er síðast þegar ég gáði á áætlun - eftir rúman klukkutíma.

Ekki skemmir fyrir að ég veit núna hvað ég mun gera næstu tvö árin. Til hamingju ég Joyful

En vika í útlandinu á eftir að gera mér gott. Ferskur blær fyrir sálina sem er búin að vera á kafi í námsefni síðustu 2.5 árin. YAY !

 Að sjálfsögðu koma updates með myndum og stöff þegar á líður - eitthvað verð ég að gera á kvöldin, og með þráðlaust á hótelinu, þá verður maður bara að nota það Tounge


Deilihugbúnaður fyrir Makkann og gott málefni...

Eftirfarandi „blurb“ er um hugbúnað fyrir Macintosh.

Windows notendum er frjást að forvitnast Wink

Þá er búið að kynna MacHeist vöndulinn og opna fyrir sölu (sem stendur næstu 15 daga).

Í boði eru eftirfarandi forrit:

  • 1Password (með aðgangi að my1Password vefþjónustunni um mánaðarmótin)
  • CoverSutra 2.0 (nýja CoverSutra exclusive fyrir MacHeist á meðan sölu stendur)
  • Cha-Ching (heimilisbókhald the Mac way - frí uppfærsla í 2.0 og aðgangur að betunni)
  • iStopMotion 2 (allar uppfærslur upp að 3.0)
  • Awaken (Öðruvísi vekjari. Allar uppfærslur innifaldar. For life.)
  • AppZapper (1.x og 2.0 verður ókeypis fyrir MacHeist kaupendur)
  • TaskPaper (Get Things Done [GTD] forrit)
  • CSSEdit (CSS ritill, læst upp að 5000)
  • Snapz Pro X (video option, læst upp að 10000)
  • PixelMator (teikniforrit, læst upp að ?)
Þau (3) forrit sem eru læst eru samt hluti af vöndlinum sem keyptur er. Það er hinsvegar ekki opnað fyrir aðgang að forritinu (og leyfiskóðanum) fyrr en X vöndlar hafa verið seldir.

Í fyrra seldust 16.000 pakkar á 15 dögum.

Í ár hefur þáttakan í MacHeist verið vonum framar og margföld á við það sem hún var í fyrra.

Vöndullinn kostar $49 ($39 fyrir þá sem tóku þátt í öllum MacHeist þrautunum). Fjórðungur andvirðisins rennur til líknarmála.

Eftirfarandi líknarsamtök njóta góðs af kaupunum:

  • Action Against Hunger
  • AIDS Research Alliance
  • Alliance for Climate Protection
  • Direct Relief International
  • Humane Society International
  • The Nature Conservancy
  • Save the Children
  • Save Darfur
  • Prevent Cancer Foundation
  • World Wildlife Fund

Sjálfgefið er upphæðinni (25% af $39-49) skipt jafnt á milli allra 10 líknarsamtakanna, en hægt er að velja ein tiltekin líknarsamtök sem eiga að njóta góðs af þínum kaupum.

Fyrir mína parta gerir iStopMotion og Cha-Ching saman vöndulinn þess virði að kaupa. Ég efast ekki um að þið getið fundið eitthvað við hæfi þarna sem gerir vöndulinn þess virði fyrir ykkur, svo endilega kíkið á þetta

Vefsíða MacHeist


Sprengigleði landans

Er ég einn um það að vera búinn að fá nóg af sprengigleði landans ?

Frá áramótum hefur verið stanslaus hríð hjá nágrönnum mínum. Hver hundraðþúsundkallinn á fætur öðrum sprengdur í loft upp. Bara nokkrum húsum frá mér er búið að skjóta upp fjárlögum grunnskólakerfisins í Reykjavík.

Og mér líður eins og ég búi á Vesturbakkannum.

Á slæmum degi.

Ég hélt að það væri bannað ap skjóta upp, nema á gamlárskvöld og á þrettándanum ?

Hvar er lögreglan ? 


Mig langar að kynna til sögunnar... fyrrverandi bloggara.

Mig langar að nota tækifærið og kynna fyrrverandi bloggara.

Manneskjan sem verður fyrir barðinu á mér er hún Sigrún Ólafsdóttir, en hún bloggaði síðast síðasta dag október mánaðar á síðastliðnu ári.

Ég kynntist henni fyrst upúr miðjum tíunda áratug síðustu aldar þegar hún rak netþjónustufyrirtækið og vefsmiðjuna Ægis. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, hún flutt til útlanda, og nú síðast, hætt að blogga.

Við minnumst þín Sigge Wink


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tóti Tölvukall

Það sem er á seyði í námi og starfi

Höfundur

Þór Sigurðsson
Þór Sigurðsson
Höfundur er Tölvunarfræðingur B.Sc. frá Háskólanum í Reykjavík, og M.Sc. nemi á sama stað.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mislæg gatnamót
  • Honda Dylan 125
  • Piaggio Vespa ET4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 477

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband