Lámarkslaun ? Hvað með námslán ?

Námslán eru ekki einusinni LAUN heldur LÁN. Þau eru Kr. 10.000,- lægri en téð lágmarkslaun. Námsmaður þarf að auki að standa straum af bókakostnaði á hverri önn sem er lánað fyrir aðeins að hluta.

Ekki sé ég neinn vinna í málum námsmanna. Og áður en einhver vænir mig um tvískinnungshátt - að vinna ekki í þeim málum sjálfur - ég er í námi. Það þýðir að ef ég ætla að fá það besta út úr minni fjárfestingu, þá geri ég lítið annað.

En hvernig væri nú að stjórn LÍN tæki hausinn úr sandinum og færi að huga að því að námsmenn eru EKKI ómagar á kerfinu sem verður að kasta í ölmusu, heldur eru þeir fólk sem er að bæta framtíðaþjóðfélag með því að mennta sig nú. Peningarnir skila sér margfalt aftur. HÆKKIÐ NÁMSLÁNIN.


mbl.is Lágmarkslaun duga ekki fyrir húsaleigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttamaður MBL fallinn í stærðfræði ?

Á tveggja kílómetra hraða á klukkustund ætti kirkjuræsknið að komast á leiðarenda á sex tímum.

Á viku (7 dögum) væri ferðahraðinn 71 og hálfur metri á klukkustund ef ferðatíminn er heil vika, ekið allan sólahringinn.

Ég er ekkert sérstaklega sleipur í stærðfræði (eins og kennarinn minn getur eflaust borið vitni um), en þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sé morgunblaðsmenn klúðra einföldustu grunnskóladæmum á hróplegan hátt.

Hann þarf þó ekki að mæta í "Ertu skarpari en skólakrakki?" til þess að stafesta stærðfræðikunnáttuna LoL


mbl.is Kirkja á tveggja kílómetra hraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur úr hörðustu átt...

Í Bretlandi eru mannréttindi sama og engin. Bæði stjórnvöld og rekstraraðilar geta troðið fótum öll réttindi sem einstaklingar telja sig hafa í nafni "öryggis", "þjóðaröryggis" og "frelsi til eftirlits".

Í Þýzkalandi er skert mál- og tjáningarfrelsi. Allt sem snertir seinni heimsstyrjöldina er tabú, og það má ekki tjá sig útfyrir þann ramma sem ríkisendurskoðun sagnfræðinga hefur samþykkt. Ekki er heldur heimilt að hafa neinar pólitískar eða persónulegar skoðanir sem hægt er að rekja á neinn hátt til nasista. Ekki einusinni þær skoðanir sem gætu talist ljós hlið á nasismanum.

Þetta eru tvö af þremur stærstu áhrifaríkjum innan Evrópusambandsins. Ætla þau virkilega að fara segja Tyrkjum fyrir verkum ? Það er þá sannarlega eggið að kenna hænunni að verpa, því í Tyrklandi varð ég minna var við her, lögreglu og eftirlit en bæði í Þýzkalandi og Bretlandi. Fólk var almennt ánægðara og glaðlyndara þar en í hinum tveimur löndunum, meira að segja fátækt fólk.

Evrópusambandið er skrýtin kú.


mbl.is ESB segir umbætur í Tyrklandi ekki ganga nógu langt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er búið að sanna það...

...að Wolfram 2,3 Turing vélin er universal.

Ég veit að það hefur litla þýðingu, annað en innan vísindanna, en gaman að vita það engu að síður.

Ef mér gengi betur að rekja garnirnar úr Theory of Computation kennaranum mínum, þá myndi ég kannski gera mér enn betur grein fyrir mikilvægi þess.

En afrekið vann tvítugur piltur að nafni Alex Smith, Rafmagns- og Tölvuverkfræðinemi við háskólann í Birmingham. Hann hlýtur $25.000,- fyrir í verðlaun. Fréttatilkynningin segir svo allt sem segja þarf.

Ég vildi óska þess að ég gerði mér betur grein fyrir mikilvæginu. Mér finnst eitthvað vanta. Hjá mér, þeas.


Pólitískur hórdómur ?

Það fer ekki hjá því að það fari um mann að fylgjast með því sem er að gerast í borgarstjórn Reykjavíkur þessa dagana. Lengi hefur verið vitað að framsóknarflokkurinn eltist bara við þann sem heldur á stærstu gulrótinni, skítt með hugsjónirnar. En nú ber nýtt við, því Björn Ingi hefur með nýjasta útspili sínu tekið af allan vafa um Fransóknarflokkinn. Pólitískur hórdómur - það er ekki hægt að kalla það neitt annað, að slíta stjórnarsamstarfi á jafn ómerkilegan hátt og hlaupa í fjölvændi með þeim sem hann hefur undanfarnar vikur kastað hvað mestum skít í.

Mér er spurn, í ljósi nýafstaðinna atburða, megum við Reykvíkingar fara fram á kosningar ? Það æpir allt á að það fari fram kosningar. Það æpir allt innra með mér að þessi hrákasmíð borgarstjórnar sem nú er sest verði að víkja, og það áður en þeir endanlega eyðileggja fjárhag og fegurð minnar góðu borgar.

Og Dag B. Eggertsson sem borgarstjóra ? Er enginn sem sér neitt að því ?

Ég fæ það ekki af mér að setja allar þær hugsanir sem þyrlast upp í höfðinu á mér hérna, en þetta er stórslys, vægast sagt.


mbl.is Sviptingar í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver segir að afrein verði að vera hægra megin ?

Hefur engum dottið í hug að það mætti færa þá akrein sem nær liggur Bústaðavegi enn nær honum, og taka Y slaufu inn á Reykjanesbrautina milli akreina ?

Mislæg gatnamót

 Það þarf svosem engan starneðlisfræðing til að rissa upp svona skissu, og enn síður þarf mikið meira en örðu af heilbrigðri skynsemi til að sjá að þó svo að hlutföllin mín séu kannski eitthvað skekkt, þá er ekkert því til fyrirstöðu að framkvæma gatnamótin á þennan hátt. Þannig væri hægt að losna við það að hrófla við Elliðaárdalnum.

Hinn möguleikinn væri náttúrulega að gera Bústaðaveginn að botnlanga við Reykjanesbraut. Þannig myndu reykvíkingar losna við gatnamótin, spara sér peninginn af framkvæmdunum og Bústaðavegurinn yrði enn á ný hættulítið hverfi en ekki aðalumferðaræð með allt of litla getu til að flytja þann fólksfjölda sem notar hann til að stytta sér leið.

En ódýrast er sennilega að gera ekkert í vegamálum. Þessi gatnamót eru ekkert sérlega hættuleg. Betra væri að reyna kenna íslendingum að keyra, kenna þeim ábyrgð og láta þá sæta ábyrgð geri þeir eitthvað af sér. Þar er málaflokkur sem vert væri að einblína á. Íslendingar í umferðinni. Og nei, okkar elskulega lögregla hefur misskilið staðreyndirnar, það er ekki hraðinn sem drepur - það er hálfvitinn við stýrið. Hvernig væri að setja svona 1/10 af því sem svona mislæg gatnamót kosta í að láta alla taka bílprófið aftur ? Enginn undanþeginn ? Eða kannski 2/10 í að setja upp myndavélar sem leita uppi "umferðartudda" ? Svo má senda tuddana á geðvonskunámskeið. Eða hirða af þeim skírteinið ef þeir láta sér ekki segjast ? Það mætti líka leita uppi þá sem valda töfum (með því að keyra of hægt eða á annan óábyrgan hátt). Það er líka hægt að gera gatnamót öruggari með því að vera með lifandi myndavélar (video) í stað kyrrmyndavéla á gatnamótum og hirða alla þá sem fara yfir á rauðu (ég sé slíkt gerast daglega, oft á dag, stundum allt að fimm bíla í einu, t.d. á mótum Laugavegs og Suðurlandsbrautar).

Það er margt hægt að gera og allt þarf ekki að kosta mislæg gatnamót. Hinsvegar, ef það þykir þurfa mislæg gatnamót, þá stendur hvergi að þau verði að koma inn á götuna frá hægri.


mbl.is Mislæg gatnamót dagar uppi í kerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Górilluát - ekki bara hræðilegt...

Það að éta górillur er að éta dýr sem eru ekkert svo fjarskyld manninum. Í mínum huga er það næsti bær við mannát og ætti að taka á með mun harðari viðurlögum en nú er gert og fyrirbyggja með nógri fræðslu.

Við (mannskepnan) eru búin að dreifa það mikið úr okkur að nánustu ættingjar okkar hafa minna og minna land og frið til að vera til. Górillurnar í Afríku eru ekki einar. Prímatar víða um heim búa við svipuð skilyrði þar sem að þeim er þrengt, þeir veiddir til matar, fjár eða gamans og að þeim veist á ýmsan hátt sem okkur mannskepnunni þætti miður bjóðandi sjálfum, yrðum við fyrir þessu sjálf.

Þó ég telji mig ekki vera neinn sérstakan aktivista í umhverfismálum, þá er þetta málaflokkur sem ég myndi gjarnan vilja sjá ríkisstjórnir allra landa láta sig varða.


mbl.is Aðeins 700 górillur eftir í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bifhjólatryggingar - leið tryggingafélaganna til mismununar. Lögbrot ?

Fyrir helgi ákvað ég að nú væri nóg komið af lélegum almenningssamgöngum. Hingað til hef ég verið þekktur fyrir það annarsvegar að nýta mér almenningssamgöngur skammlaust, og hitt að fara ferða minna á Vespu.

Vespuna seldi ég í vor bæði vegna þess að hún var komin til ára sinna og umboðið hafði lagt upp laupana og hinsvegar vegna þess að mér auðnaðist sú ánægja að viðbeinsbrjóta mig, og gat því lítið notað vespuna um skeið.

En nú var komið nóg. Við breytingu Strætó BS yfir í tvær ferðir á klukkutíma (og á klukkutímafresti eða sjaldnar upp á skaga) fannst mér breytinga þörf. Ég ákvað því að horfa eftir annarri vespu, en stærri en þeirri sem ég átti síðast (Piaggio Vespa ET4/50).

Ég fann vespuna sem mig langaði í. Honda Dylan 125. Litlu stærra en sú gamla, en ögn sprækari.

Þá var eftir að finna tryggingafélag. Þar sem ég vissi fastanúmerið á hjólinu sem stóð til að kaupa, þá var ekkert annað að gera en að hringja í tryggingafélögin og athuga hvað þau vildu selja mér tryggingu á. Það þarf náttúrulega að koma fram fyrirfram að ég er námsmaður í leiguhúsnæði og bíllaus og því ekki mikið af öðrum tryggingum sem ég þarf á að halda.

Fyrst var hringt í Íslandstryggingu. Þeir gátu boðið mér tryggingu á hjólið fyrir 57 þúsund á ári. Mér fannst það dýrt ( og þykir enn, þó það hafi veriðsú trygging sem ég valdi á endanum ).

Svo var hringt í Tryggingamiðstöðina. Þar var mér tjáð að trygging á þetta tiltekna hjól væri 470 þúsund á ári. 470 þúsund ! Ég get tryggt hálfan skipaflotann fyrir þann pening. Rugl og vitleysa sagði ég og þakkaði fyrir tímasóunina.

Næsta stopp: Sjóvá (ó)Almennar. Eftir að hafa fengið hjá mér kennitölu og númer ökutækis hafði sölufulltrúinn eftirfarandi að segja (nokkurnveginn orðrétt) "Ég ætla ekki að fara gera þér neitt sérstakt tilboð ef þú ert ekki með Stofn eða aðrar tryggingar hjá okkur. Tryggingin kostar 500 þúsund"

Hún ætlar ekki að gera mér neitt sérstakt tilboð afþví að ég er ekki með aðrar tryggingar hjá þeim ?

Eru bifhjólatryggingar tryggingafélaganna einhver sérstök fríðindi aðeins veitt þeim sem eiga allt til alls, tryggja það í bak og fyrir hjá einu tryggingafélagi, en öðrum kosti sleggja sem notuð er til að berja niður þá sem vilja frekar nota bifhjól af hugsjón en skemmtiþörf ?

Er það yfirleitt löglegt að krefjast þess að þú verðir að vera með aðrar tryggingar hjá tryggingafélagi til þess að fá viðunandi verð á bifhjólatryggingu ? Og er löglegt að stunda okur ? Já, okur. Það telst að okra á vöru ef þú selur hana á tíföldu því verði sem einhver annar selur hana á. Þegar svo er tekið tillit til þess að sama vara kostar í samanburðarlöndunum um fimmtung af því lægsta verði sem ég fann hér, þá er okrið orðið býsna drjúgt.

Og til að staðfesta þá mismunun sem ég tel að sé á þessum tryggingamarkaði, þá hef ég það eftir þeim sem seldi mér hjólið að hann fékk trygginguna á 30 þúsund hjá VíS þar sem hann var með tvo bíla tryggða, og þar áður var hann með litla vespu tryggða fyrir 10 þúsund ( sem ég greiddi 28 þúsund fyrir hjá Íslandstryggingu ).

Ég tel það löngu orðið tímabært að Ísland gangi inn í evrópusambandið, þó ekki væri til annars en að tryggingafélög eins og þau sænsku og ensku gætu komið inn á okkar tryggingamarkað og losað okkur undan þeirri einokunarstefnu samráðs sem risaeðlurnar á íslenska tryggingamarkaðnum hafa skapað. Við höfum enga þörf fyrir svona óþverrahátt í þjóðfélaginu og getum alveg verið laus við þetta að skaðlausu.


« Fyrri síða

Um bloggið

Bakþankar Námsmanns

Höfundur

Þór Sigurðsson
Þór Sigurðsson
Höfundur er Tölvunarfræðingur B.Sc. frá Háskólanum í Reykjavík, og M.Sc. nemi á sama stað.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • Mislæg gatnamót
  • Honda Dylan 125
  • Piaggio Vespa ET4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband